Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 344. máls.

Þskj. 378  —  344. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga.

(Lagt fyrir Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006.)




1. gr.

    2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að víkja frá ákvæðum þessa hluta, þó ekki ákvæðum varðandi ábyrgðartryggingar í 46. gr., þegar vátrygging er tekin vegna atvinnurekstrar og einhverju eftirfarandi skilyrða er fullnægt:
     a.      umfang rekstraraðilans við gerð vátryggingarsamnings eða við endurnýjun hans samsvarar fleiri en fimm ársverkum,
     b.      starfsemin fer að mestu leyti fram erlendis,
     c.      vátrygging er tekin vegna skráðs loftfars,
     d.      vátryggðar eru vörur í flutningi á milli landa.

2. gr.

    Í stað orðsins „líftryggingum“ í 2. mgr. 85. gr. laganna kemur: hreinum áhættulíftryggingum.

3. gr.

    2. mgr. 86. gr. laganna orðast svo:
    Í öðrum persónutryggingum en hreinum áhættulíftryggingum getur félagið í skilmálum gert fyrirvara um að það beri einungis ábyrgð á sjúkdómi eða öðru tjónsatviki, að einkenni eða atvik hafi komið fram eftir ákveðið tímamark. Hið sama á við um vátryggingu á örorku í tengslum við líftryggingu.

4. gr.

    1. málsl. 2. mgr. 100. gr. laganna orðast svo: Vátryggingarfjárhæð, sem fellur til við andlát vátryggingartaka, rennur til maka hans, hvort sem viðkomandi var í hjúskap eða staðfestri samvist.

5. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „93. gr.“ í 3. málsl. 2. mgr. 120. gr. laganna kemur: 94. gr.

6. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2006.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp til laga um vátryggingarsamninga var samþykkt á 130. löggjafarþingi og birt sem lög nr. 30/2004. Koma lögin til framkvæmda 1. janúar 2006. Fyrir liggur að gera þarf nokkrar breytingar á lögunum og er brýnt að þær nái fram að ganga áður en lögin koma til framkvæmda í byrjun næsta árs. Um er að ræða leiðréttingar á tilvísunum milli ákvæða (3. gr. og 120. gr.), efnisbreytingar á ákvæðum í því skyni að gera skýrari greinarmun á milli svonefndra heilsutrygginga án uppsagnarréttar (sjúkdómatrygginga) annars vegar og hreinna áhættulíftrygginga hins vegar (85. gr. og 86. gr.) og loks árétting um rétt eftirlifandi maka til greiðslu vátryggingarfjárhæðar (100. gr.).

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með þessari grein er tekin upp tilvísun í 2. mgr. 3. gr. til 46. gr. laganna. Að auki er orðalagi ákvæðisins breytt lítillega til að skýra frekar að hvaða marki 46. gr. laganna hefur hér þýðingu. Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 30/2004 var í 2. mgr. 3. gr. vísað til 46. gr. Við þinglega meðferð frumvarpsins voru nokkrar breytingar gerðar á 3. gr. og féll þá niður tilvísunin til 46. gr. Hefur brottfall þetta valdið óvissu um gildissvið hinna ófrávíkjanlegu ákvæða og er girt fyrir allan vafa með því að setja tilvísunina aftur inn.

Um 2. og 3. gr.

    Með 2. gr. er kveðið á um að takmörkun á rétti vátryggingafélags til að bera fyrir sig að upplýsingaskyldu hafi ekki verið fullnægt skv. 2. mgr. 85. gr. sé bundin við hreinar áhættulíftryggingar.
    Með 3. gr. er vátryggingafélagi í vátryggingarskilmálum persónutrygginga heimilt að gera fyrirvara um að það beri einungis ábyrgð á sjúkdómi eða öðru tjónsatviki, að einkenni eða atvik hafi komið fram eftir tiltekið tímamark. Sé um að ræða hreina áhættulíftryggingu er slíkur fyrirvari þó óheimill.
    Rétt þykir hér að fara nokkrum orðum um nauðsyn gleggri greinarmunar á heilsutryggingum án uppsagnarréttar (sjúkdómatryggingum) og áhættulíftryggingum.
    Í 2. mgr. 61. gr. laganna segir að þegar rætt sé um líftryggingu í II. hluta laganna sé einnig átt við heilsutryggingu án uppsagnarréttar nema annað sé tekið fram. Vegna vandamála sem upp hafa komið, m.a. í tengslum við öflun endurtryggingarverndar, er nú talið nauðsynlegt að víkja frá þessari meginreglu víðar en lögin gera nú. Á það við um 85. og 86. gr. laganna.
    Í 1. málsl. 2. mgr. 85. gr. laganna segir: „Í líftryggingum getur félagið aðeins borið fyrir sig að upplýsingaskyldu hafi ekki verið fullnægt ef vátryggingaratburður hefur orðið eða félagið hefur veitt viðvörun skv. 94. gr. innan tveggja ára frá því að ábyrgð þess hófst.“ Lagt er til að í stað þess að miða við líftryggingar skuli hér miða við hreinar áhættulíftryggingar.
    Vegna heilsutrygginga án uppsagnarréttar vátryggingafélags, en undir þær falla svonefndar sjúkdómatryggingar, er þessi breyting nauðsynleg. Mismunandi sjónarmið eiga við um áhættumat í heilsutryggingum án uppsagnarréttar og áhættulíftryggingum. Í stað þess að hafna vátryggingarbeiðni er af þeim sökum t.a.m. algengara að sjúkdómatrygging án uppsagnarréttar sé veitt með sérstökum skilmálum þar sem tiltekin áhætta hefur verið undanskilin eða með hærra iðgjaldi en þegar áhættulíftrygging á í hlut. Er því gerð tillaga um að 2. mgr. 85. gr. laganna taki fyrst og fremst til hreinna áhættulíftrygginga en ekki heilsutrygginga án uppsagnarréttar.
    Í 2. mgr. 86. gr. laganna segir: „Í sjúkratryggingum getur félagið í skilmálum gert fyrirvara um að það beri einungis ábyrgð á sjúkdómi hafi einkenni hans komið fram eftir ákveðið tímamark. Hið sama á við um vátryggingu á örorku í tengslum við líftryggingu.“
    Komið hefur í ljós að það er vandkvæðum bundið að binda þetta ákvæði einungis við sjúkratryggingar og ekki í samræmi við það sem tíðkast víðast hvar í samanburðarríkjum. Þá er rétt að fram komi að í sjúkdómatryggingu kann hið bótaskylda tilvik að vera aðgerð, sem leiðir af sjúkdómi, en ekki greining sjúkdóms sem slík. Því er nauðsynlegt að bæta við ákvæðið tilvísun til tjónsatvika en einskorða það ekki við sjúkdóminn sem slíkan. Því er lagt til að ákvæðið hljóði svo: „Í öðrum persónutryggingum en hreinum áhættulíftryggingum getur félagið í skilmálum gert fyrirvara um að það beri einungis ábyrgð á sjúkdómi eða öðru tjónsatviki, að einkenni eða atvik hafi komið fram eftir ákveðið tímamark. Hið sama á við um vátryggingu á örorku í tengslum við líftryggingu.“
    Í athugasemdum við 2. mgr. 85. gr. í frumvarpi því sem síðar varð að lögum nr. 30/2004 kemur fram að ástæður sérreglu þessa ákvæðis um líftryggingar séu þær að þeim sé ætlað að gilda um langan tíma og eðlilegt sé að ekki verði við þeim hróflað löngu eftir gildistöku. Er sérstaklega tekið fram að þar skipti mestu máli að það kynni að veikja viðskiptagildi réttinda samkvæmt líftryggingarsamningi ef kröfuhafar, t.d. veðhafar eða þeir sem fengið hafa slík réttindi framseld, gætu átt á hættu að vátryggingarsamningi yrði slitið vegna aðstæðna sem voru fyrir hendi fyrir gerð samnings. Með þessu sé verið að minnka líkur á því að réttindi þriðja aðila vegna slíkra samninga skerðist vegna rangra upplýsinga sem vátryggður gaf við upphaf samnings. Þessi sjónarmið eru enn í fullu gildi en eiga á hinn bóginn ekki við um heilsutryggingar án uppsagnarréttar, t.d. sjúkdómatryggingar eins og þær hafa verið reknar hér á landi og erlendis. Úr sjúkdómatryggingu eru greiddar bætur til vátryggðs í lifanda lífi. Til bótagreiðslu kemur ef vátryggður greinist með einhvern af þeim sjúkdómum sem tilgreindir eru í skilmálum. Samningurinn er óuppsegjanlegur af hálfu félagsins. Taka má í grundvallaratriðum undir sjónarmið um nauðsyn þess að draga úr líkum á því að þriðji aðili, sem ekkert hafði með útfyllingu heilsufarsumsóknar að gera, missi rétt til líftryggingarbóta löngu eftir að samningur komst á. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til er það áréttað að sjúkdómatrygging skuli ekki fortakslaust sett undir sama hatt og líftryggingar almennt. Vegur þar þyngst, sem áður greinir, að ekki er um að ræða hugsanlegan missi réttar þriðja aðila vegna rangrar upplýsingagjafar. Það er hinn vátryggði sem ætíð er sjálfur rétthafi bóta, það er hann sem fyllti út umsókn og það er fyrst og fremst hann sjálfur sem á að bera hallann af því að hafa gefið rangar upplýsingar. Nauðsynlegt er að unnt sé að ganga út frá því að allar heilsufarsupplýsingar hafi verið gefnar við töku sjúkdómatrygginga og engu skotið undan. Óvissa um slíkt hefur áhrif á reiknigrunn þann sem vátryggingin er byggð á.
    Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra tryggingafélaga (SÍT) er hætta á að sjúkdómatryggingar í þeirri mynd sem tíðkast hafa hér á landi kunni að heyra sögunni til verði lögunum ekki breytt. Yrði þá væntanlega þess í stað boðið upp á sjúkdómatryggingu með árlegum endurskoðunarrétti vátryggingafélaga á bæði iðgjöldum og skilmálum, eins og tíðkast almennt í slysa- og sjúkratryggingum. Slíkt kynni að hafa í för með sér stórum lakari vernd fyrir vátryggingartaka og vátryggða en tíðkast hefur.
    Við samningu frumvarps þessa var leitað sjónarmiða SÍT sem óskaði eftir mati Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga (FÍT) á þeim áhrifum sem óbreytt ákvæði 85. og 86. gr. mundu hafa. Í minnisblaði stjórnar FÍT um þetta efni kemur m.a. fram að sjúkdómatryggingar séu tryggingagrein með tiltölulega skamma sögu og smæð íslenska markaðarins valdi því að útilokað sé að byggja eingöngu á innlendri reynslu. Af þeim orsökum hafi áhættumat hérlendis frá upphafi byggst á nánu samstarfi við erlenda endurtryggjendur og innlend vátryggingafélög byggt áhættumat algjörlega á reglum frá þeim. Án slíks samstarfs væri grundvöllur að áhættumati félaganna brostinn og ógerlegt fyrir innlend félög að bjóða sjúkdómatryggingar. Hafi erlendir endurtryggjendur lýst yfir miklum áhyggjum og sé á þessari stundu óljóst hvernig þeir muni bregðast við komi ekki til nauðsynlegra breytinga. Á heimsvísu sé íslenski markaðurinn ekki stór og séu endurtryggjendur hræddir um að markaðurinn nái ekki að bera þá áhættuaukningu sem óbreytt lög leiði hugsanlega af sér. Hvað núverandi stofn varði þá liggi fyrir að óbreytt lög muni leiða af sér hækkun endurtryggingariðgjalda vátryggingafélaganna og þar með hækkun iðgjalda viðskiptavina. Samkvæmt mati FÍT megi ætla að sú hækkun nemi að minnsta kosti 20–25%.

Um 4. gr.

    Samkvæmt lögum nr. 87/1996, um staðfesta samvist, geta tveir einstaklingar af sama kyni stofnað til staðfestrar samvistar. Samkvæmt 5. gr. laganna segir afdráttarlaust að staðfesting samvistar hafi sömu réttaráhrif og stofnun hjúskapar, þó með undantekningum að því er varðar lög um ættleiðingu og tæknifrjóvgun. Þá skuli ákvæði laga sem varða hjúskap og maka gilda um staðfesta samvist og einstaklinga í staðfestri samvist.
    Í lögum um vátryggingarsamninga kemur hugtakið maki víða fyrir og er ágreiningslaust, m.a. vegna tilvitnaðra ákvæða laga nr. 87/1996, um staðfesta samvist, að það taki almennt einnig til einstaklings í staðfestri samvist. Þótt það hafi verið óþarft var sú túlkun m.a. sérstaklega áréttuð í athugasemdum við 29. gr. laganna.
    Í 100. gr. laganna er fjallað um rétt til greiðslu bóta frá vátryggingafélagi þegar vátryggingartaki hefur ekki sjálfur ráðstafað vátryggingunni. Er þar í ýmsu horft til ákvæða erfðalaga sem fyrirmyndar, m.a. varðandi réttindi maka. Í athugasemd við 2. mgr. 100. gr. segir hins vegar að orðið maki í 1. málsl. 2. mgr. 100. gr. taki „ekki til eftirlifandi samvistarmanns þótt til samvistar hafi verið stofnað samkvæmt lögum um það efni, nr. 87/1996.“
    Að vonum hafa þessi ummæli í athugasemd orðið tilefni skoðanaskipta og nokkurs ágreinings. Hefur þetta atriði komið til skoðunar hjá forsætisráðuneytinu þar sem unnið er að því að nema úr lögum ákvæði er hafa að geyma mismunun í garð samkynhneigðra. SÍT hefur og vakið athygli á því að þrátt fyrir þessi ummæli í athugasemdum við 100. gr. laganna sé vafasamt að það fái staðist að réttarstaða einstaklinga í staðfestri samvist verði önnur og lakari í þessum efnum en maka í hefðbundnum hjúskap. Miklu varði þó fyrir bæði vátryggingafélög og rétthafa bóta að öllum vafa í þessu efni verði eytt. Getur enda mismunun af þessu tagi haft miklar fjárhagslegar afleiðingar í för með sér.
    Til þess að taka af öll tvímæli um rétt eftirlifandi maka er því lagt til að breyting verði gerð á 1. málsl. 2. mgr. 100. gr. Með því er það áréttað að ummæli í athugasemd við 2. mgr. 100. gr. í frumvarpi til laga um vátryggingarsamninga, sem samþykkt voru á Alþingi á vorþingi 2004 og birt sem lög nr. 30/2004, þess efnis að orðið maki í 1. málsl. 2. mgr. 100. gr. taki ekki til eftirlifandi samvistarmanns þótt til samvistar hafi verið stofnað samkvæmt lögum um það efni, skulu ekki hafa þýðingu við túlkun og framkvæmd laga nr. 30/2004.
    Jafnframt skal það áréttað að þar sem hugtakið maki kemur fyrir í lögum nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, tekur það einnig til einstaklinga í staðfestri samvist samkvæmt lögum nr. 87/1996.

Um 5. gr.

    Hér er um að ræða leiðréttingu á rangri tilvísun í 2. mgr. 120. gr., en ekki efnisbreytingu. Í stað 93. gr. verði vísað til 94. gr. laganna.

Um 6. gr.

    Eins og áður hefur verið fjallað um koma lög nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, til framkvæmda 1. janúar 2006. Miklu skiptir að þær breytingar sem hér eru lagðar til komi til framkvæmda á sama tíma.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 30/2004,
um vátryggingarsamninga.

    Markmiðið með frumvarpinu er að gera skýran greinarmun á milli svonefndra heilsutrygginga án uppsagnarréttar annars vegar og hreinna áhættulíftrygginga hins vegar. Loks er árétting á rétti eftirlifandi maka til greiðslu vátryggingarfjárhæðar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi aukinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.